Um Lón í Kelduhverfi

Um Lón í Kelduhverfi

Lón. 12 hundruð að dýrleika, fyrir innan botninn á lónum þeim er skera sig þar inn frá sjóarsíðu og álítast hálf vika á lengd, 700 faðmar á breidd en 6 ½ faðmur á dýpt. Rif liggur í gegnum mið lónin, með tveimur ósum gegnum það, einn þeirra 12 en annar 16 faðmar að breidd, en um breidd á sjóarósnum verður ekkert til vissu sagt, því hann breytist árlega. Í innri lónunum er einn æðarvarpshólmi og nokkrir smáhólmar með litlu töðugresi”

“Eggvarp er hér aðeins í Lóni, þó ei meira en svo að dúnninn hreinsaður betalar tæplega landskuldina sem er 12 hundruð. Fer varp það heldur minnkandi vegna gripfugls og vorharðinda; er þó rækilega hirt og vaktað af landseta.”

Heimild: Þingeyjarsýslur, sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1844

Úr Árbók Ferðafélags Íslands 1965

"Vegurinn austur og niður á við frá Auðbjargarstöðum liggur um úfið hraun með grasi vöxnum gjám, unz komið er á brekkubrún, en undir henni er Lón, tveir bæir samtýnis og annar nýbýli og standa þeir við botn fyrrnefndra lóna. Þau eru nú oft nefnd Lónslón. Lengd þeirra var talin hálf vika sjávar frá norðri til suðurs. Gætir þar sjávarfalla, en afrennsli er um Lónsós gegnum mjóan sandhrygg til sjávar í norðausturhorni Lónanna. Áður mun það hafa legið vestar, í Fjallahöfn. Nærri Lónsósi er jarðhiti. Mest dýpi er sunnan til í Lónunum, en malarrif er um það þvert nærri vatnsborði. Silungsveiði er í vatni þessu og æðarvarp í hólmunum. Selalátur voru þar fyrrum og nótaveiði á öldinni sem leið. Undan Lónsbrekku er stundum róið til fiskjar á sjó ut gegnum Lónin og Lónsós, og þarf þá að sæta sjávarföllum. Vöðuselur var fyrrum veiddur í lagnætur í Fjallahöfn, Bangastaðahöfn og út af Víkingavatnsreka. Að Lóninu falla vötn neðanjarðar undan hraunum þeim, er síðar verður að vikið, og í mikilli úrkomutíð hækkar ört í Lóninu. Þegar ósinn fyllist af sandi vegna sjávargangs, geta orðið stórflóð. Fagurt er á Lónsbrekku, einkum á vorin, að sjá yfir Lónin og hólmana og til vesturs hið eftra brekkur viði vaxnar, en utar Valabjörg, Hafnarbjörg og yst Hringsbjarg, sem er óslitið standberg að eftstu brún. Á miðnætti um sumarsólstöður virðist sólin sitja á Hringsbjargi eða koma út úr því miðju. - Til umræðu hefur komið að gera hafskipahöfn í Fjallahöfn eða inni í Lónunum, einkum í sambandi við virkjun Dettifoss."...