Minn innblástur-amma Hulda

Minn innblástur-amma Hulda

Amma Hulda var fædd árið 1910, fimm árum áður en konur fengu kosningarétt.  Hennar lífshlaup var hefðbundið miðað við þann tíma. Hún ólst upp á stóru sveitaheimili á Ófeigsstöðum í Kinn, gekk í húsmæðraskólann á Laugum í Þingeyjarsýslu og giftist síðan stráknum á næsta bæ.  

Á hennar tíma voru heimili sjálfbjarga um flest, hvort sem það var fæði eða klæði.  Í 10 ár byggði ég upp og rak sápugerðarfyrirtækið Sælusápur og var minn innblástur ein blaðsíða í bók ömmu frá húsmæðraskólanum. Innan á kápu var rissað með blýanti uppskrift að heimagerðri sápu.

Þegar ég seldi Sælusápur leitaði ég aftur aði innblástri í sömu bók . Þar voru lýsingar á vefnaði, allskonar matargerð og leiðbeiningar um veggfóðrun. Þá rakst ég á upplýsingar um jurtalitun, lýsingar á hvernig ætti að lita og hvaða litur fékkst úr hvaða jurt. Bingó! Þetta langaði mig til að gera... Eftir allskonar tilraunir, þátttöku í frábæru jurtalitunarnámskeiði hjá Guðrúnu í Hespu og endalaust grúsk á netinu þá birtist afraksturinn hér og nú.

Ég er heilluð af litunum sem íslenska flóran býður uppá, ég er líka heilluð af þeim möguleika að nota ull af kindunum mínum. Ég er heilluð af þeirri hugmynd að geta ræktað minn eiginn feldfjárstofn og framleitt sérstaklega mjúkt ullarband.  

Ég vona líka að ég geti heillað ykkur með þessu verkefni!