Göngur nálgast

Göngur nálgast

Í smölun er oft þeim manni um megn

sem má ekki þola storm og regn.

Best er að sérhver búandþegn

sé bálreiður haustið út í gegn.

 

Nú styttist í göngur og réttir. Skemmtilegasti tími ársins. Þetta verður samt öðruvísi en venjulega vegna Covid-19 en nú mega eingöngu bændur og búalið taka þátt. https://www.bbl.is/frettir/frettir/gongur-og-rettir-og-covid-19/22855/. Göngum fylgir alltaf mikil spenna, að mörgu leiti er þetta eins og veiðimennska. Leita uppi kindurnar, góma þær og koma til réttar. Oft kostar það mikinn eltingarleik og stundum hafa kindurnar betur. Þá verður að fara í aðrar göngur og ef það dugir ekki þá eftirleitir. 

Í Kelduhverfi eru göngur frekar einfaldar. Lagt er af stað um miðja nótt til að geta hafið smölun strax í birtingu. Það birtir á milli hálf sex og hálf átta, allt eftir því hvað langt er liðið á haust.  Það er alltaf auðveldara að smala fé meðan ekki er orðið hlýtt af degi. Allra verst er að smala í hlýjum meðvindi. Kindur vilja yfirleitt alltaf ganga á móti vindi, því þá eru þær lausar við mýflugurnar.

Afrétturinn, eða heiðin, er frekar afmarkaður og því er öllum gangnamönnum, uppundir 60 manns, raðað í eina línu syðst í heiðinni. Síðan er gengið til norðurs og smalað þangað komið er í byggð og kindurnar reknar í réttir. Hljómar einfalt, ekki satt. En nei, það er ekki svo. Línan getur riðlast, einhverjir lenda í erfiðum kindum sem vilja fara í öfuga átti við það sem ætlast er til. Sumar fela sig og sjást ekki fyrr en búið er að ganga töluvert framfyrir þær. Ef línan riðlast geta kindur stungið af í gatinu sem myndast. Sumir gangnamenn eru hraðskreiðari og reyna að vinna göngurnar. Aðrir eru hæggengari. Stundum verða gangnamenn reiðir út í aðra gangnamenn. Gangnamenn snúa sig á ökla, fá hælsæri, verða gegnblautir og kaldir. Helv. talstöðvarnar verða straumlausar, einhverjir borða samlokuna þína, sumir lenda í að elta sama kindahópinn kílómetrum saman, feitar kindur verða þreyttar og verða þrjóskar og leiðinlegar, þá þarf að lyfta þeim upp í kerruna og efa þeim far og óboj, hvað þær geta verið þungar J  Þetta gleymist þó allt þegar komið er til réttar, en er rætt í þaula við eldhúsborðið seinna! 

Afgangurinn af kvæðinu sem pistillinn hófst er ekki síðri, en höfundurinn er Sigurbjörn Kristjánsson frá Finnsstöðum í Kinn (frændi minn!).

 

Þú skalt æða yfir storð,

aldrei tala hlýlegt orð.

Svipurinn þarf að minna á morð

ef menn eiga´ að smala á annað borð.

 

Hendi skal á móti hönd

þá heima eru smöluð lönd.

Orðin þá ekki valin vönd

vestur á Glámu og Barðaströnd.

 

Er réttinni safnið rennur nær

reynir á þol og fimar tær.

Hver sá er verður ekki ær

ætti´ ekki að teljast gangnafær.

 

Ef reksturinn kemur þú reiðast átt,

rífast um bæði stórt og smátt,

tvístra´ onum, öskra og hrópa hátt

en hirða hann bara, ef það er fátt.