Feldfé - einstök ull

Feldfé - einstök ull

Til er sérstakur feldfjárstofn á Íslandi, hann er mjög lítill og er aðallega ræktaður í Meðallandinu. Feldfé er ræktað vegna ullargæða og sóst eftir að  "háragerðin sé sem jöfnust og hárin falli í sterka hæfilega stóra, gljáandi lokka sem ná alveg inn að skinni"  

Ég á ekkert feldfé, en margt forystufé. Mín reynsla er sú að ull af forystufé sé mýkri en af öðru fé.  Þar sem við getum ekki keypt hreinræktuð lömb af feldfjárstofni, er eina leiðin fyrir mig að nýta mér sæðingar á eigin ám og ná þannig smám saman nánast hreinum stofni.  Þá fékk ég þá flugu í höfuðið að forystuærnar yrðu mæður fyrstu feldfjárlambanna.  Því bæði forystufé og feldfé er frægt fyrir að vera frekar rýrt og illa vaxið og lítt fallið til kjötframleiðslu, og afurðaskaðinn minnstur af þessari blöndu. 

Nú í vor á ég von á 6, væntanlega gráum og svörtum, kollóttum 50% feld- og 50% forystulömbum. Ef það koma nokkrar gimbrar get ég boðið upp á ullina af þeim strax í nóvember/desember.  En það mun þó taka mig nokkur ár að ná stofninum nokkuð hreinum og þar með með enn meiri ullargæði.   

Myndin er af honum Fora, hreinræktuðum forystuhrút sem við áttum upp úr aldamótum. Einstaklega gæfur hrútur með gott forystueðli.